fimmtudagur, september 14, 2006

Við Elsa gengum í hjónaband í Langholtskirkju á laugardaginn síðastliðinn, 9. sept, sem er brúðkaupsafmælisdagur tengdó. Þrátt fyrir rigningarspár og byljandi rigningu um morguninn rættist mjög vel úr veðri og þegar stundin nálgaðist að ég og pabbi skyldum halda í átt að kirkjunni sá ég að það myndi rætast sem ég var búinn að tauta alla vikuna, meir í von en í sannfæringu, að það myndi sko ekkert rigna. Ég græjaði mig heima hjá mömmu og pabba á meðan að Elsa fór í kjólinn og allt það heima hjá okkur. Svo fór ég í kirkjuna og beið við altarið á meðan vinir og vandamenn streymdu inn. Við pabbi stóðum þarna og hneigðum okkur fyrir þeim er virtu okkur viðlits (furðulegt hvað fáir vita af þessum sið). Síðan kom mín verðandi eiginkona í kirkjuna rétt yfir kl. 4 og athöfnin hófst. Þvílík upplifun! Elsa var/er/verður glæsileg og Bríet stóð sig vel sem brúðarmær. Athöfnin var frábær og einlæg. Bríet og Þengill settu sinn svip á athöfnina og tónlistaratriði Kittu/Sindra og Ásgeirs/Harðar voru frábær. Ég gleymi því aldrei. Síðan var haldið út í brúðarbílinn (lánsbíl frá Heklu, nýjann Audi A6 með öllu) og haldið niður í Grasagarðinn í myndartöku hjá Sissu ljósmyndara. Þar var einnig frábær stund hjá okkur nýgiftu hjónunum á frábærum stað.
Síðan var haldið í veisluna á hótel Nordica, með smá stoppi í Berjarima, og þar biðu veislugestir eftir okkur með miklum fögnuði. Það var frábær stund að ganga þarna inn og hitta alla sína vini og ættingja sem bíða eftir að fagna með okkur Elsu þessum frábæra degi.
Veislan byrjaði fljótt og var strax augljóst að við höfðum valið vel með Nordica. Starfsfólkið stóð sig rosalega vel, öll aðstaða og umgjörð var frábær og stemmningin sem myndaðist þarna var alveg frábær. Ræður, skemmtiatriði, maturinn, hljómsveitin Vítamín. Allt var frábært og við Elsa nutum svo gestrisni Nordica í svítu frá þeim yfir nóttina.
Þetta var frábær dagur, ekkert klikkaði og það var frábært að njóta slíks unaðsdagar af þessu frábæra tilefni með sínum nánustu.
Ég set inn myndir á ljósmyndaalbúminu mínu fljótlega.

Engin ummæli: