sunnudagur, september 18, 2005

Staðið upp eldsnemma á morgnanna

Þengill vaknaði að sjálfsögðu fyrir allar aldir í morgun. Og ég átti morgunvaktina. Nema hvað að ungur maður ákvað að standa upp í fyrsta sinn fyrir framan foreldra sína, þá er voru viðstaddir. Hingað til hefur hann þurft eitthvað til að standa upp við, notað borð, stóla, ryksuguna eða jafnvel lappir foreldranna við að standa upp og styðja sig. En þarna setti hann báðar yljar flatar í gólfið, báða lófa í gólfið einnig, skaut rassinum upp í loft og svo stóð hann upp á tveim sekúndum eins og mannkynið gerði hér fyrir milljónum árum síðan og lyfti báðum höndum upp í loft, sigri hrósandi, fyrir framan pabba sinn.

Ég klappaði þarna á naríunum einum fata og hvatti hann til frekari afreka. Og viti menn, sá stutti endurtók bara leikinn til að sýna fram á að fyrra afrekið hafi ekki verið nein heppni. Enda er heppni enginn faktor í svona hlutum.

Og eftir þetta klöppuðum við feðgar saman í fögnuði. Þengill rogginn og stoltur. Pabbi hans líka.