mánudagur, september 26, 2005

Var klukkaður

Drekinn frá Oz og JónGroup (Jón Heiðar) klukkuðu mig með tveggja daga millibili. Bloggarar eru með leik greinilega þessa dagana þar sem þeir klukka hvorn annan og sá sem er klukkaður á að lista upp fimm (5) tilgangslaus atriði um sjálfan sig og að því loknu klukka fjóra aðra.
Eftir gífurlega samviskuskoðun hef ég ákveðið að taka ekki þátt. Í fyrsta lagi eru engar upplýsingar um mig tilgangslausar. Engar. Í öðru lagi er veldisvöxtur á svona leik. Þannig að ef ég klukka fjóra núna, og þeir klukka allir fjóra til viðbótar þá er ég búinn að pirra tuttugu (20) manns, fjóra sem ég klukkaði + 16 sem þeir klukka svo.

Þannig að ég vona að JónGroup og Drekinn frá Oz fyrirgefi mér það þó ég svíki lit og ákveði að taka ekki þátt.

fimmtudagur, september 22, 2005

Minningarorð um Kristján afa

Margan manninn hef ég hitt um æfina frá öllum heimsins hornum en engann eins mikinn heiðursmann og hann Kirstján afa minn. Ég hitti hann í fyrsta sinn í Espigerðinu þegar ég var um 10 ára þar sem Ólöf amma og Kristján voru nágrannar og voru að rugla saman reitum. Strax frá þeim fyrstu kynnum var mér af skaplega vel við Kristján og eftir því sem árin liðu, og við kynntumst betur, fór ég að líta meira á hann sem afa minn heldur en ævifélaga ömmu minnar. Hann var geysilega gestrisinn, hlýr, kíminn og áhugasamur um lífsviðburði okkar. En umfram allt var hann heiðursmaður fram í fingurgóma. Yndislegur heiðursmaður. Það var alltaf gaman að spjalla við hann um heima og geima, menn og málefni, því hann var hafsjór af fróðleik og hann hafði alltaf “afaleg” ráð að gefa mér þegar ég var óviss um ákvarðanir. Viskumolana átti hann gnógt af og deildi hann þeim með okkur af mikilli óeigingirni.

Ég á eftir að sakna Kristjáns afa mikið. Þegar maður hefur notið samfylgdar slíks öðlings sem Kristján var verður eftir tómarúm þegar hann fer sem aldrei verður fyllt. Ég vona því að ég hitti fleira fólk eins og hann Kristján afa á lífsleiðinni því það gerir heiminn að fallegri stað og betri.

Guð blessi hann Kistján afa og varðveiti.

Blóm eru ódauðleg, sagði hann og hló. Þú klippir þau í haust og þau vaxa aftur í vor, - einhvers staðar.
(Halldór Laxness, Atómstöðin).

þriðjudagur, september 20, 2005

Bríet var að hoppa á milli grárra reita á hellulagðri stéttinni fyrir utan húsið. Svo kom að því að gráu reitirnir tóku enda og við tóku rauðar hellur. Ég hvatti hana áfram, sagði henni bara að hoppa alla leið á stigann sem liggur að íbúðinni okkar. En sú stutta var nú ekki á því. Hún sagði sko hátt og snallt: "Maður á ekki að hoppa ef maður hefur ekkert að hoppa til.". Jamm ef Tumi tígur vissi nú af þessu....

sunnudagur, september 18, 2005

Staðið upp eldsnemma á morgnanna

Þengill vaknaði að sjálfsögðu fyrir allar aldir í morgun. Og ég átti morgunvaktina. Nema hvað að ungur maður ákvað að standa upp í fyrsta sinn fyrir framan foreldra sína, þá er voru viðstaddir. Hingað til hefur hann þurft eitthvað til að standa upp við, notað borð, stóla, ryksuguna eða jafnvel lappir foreldranna við að standa upp og styðja sig. En þarna setti hann báðar yljar flatar í gólfið, báða lófa í gólfið einnig, skaut rassinum upp í loft og svo stóð hann upp á tveim sekúndum eins og mannkynið gerði hér fyrir milljónum árum síðan og lyfti báðum höndum upp í loft, sigri hrósandi, fyrir framan pabba sinn.

Ég klappaði þarna á naríunum einum fata og hvatti hann til frekari afreka. Og viti menn, sá stutti endurtók bara leikinn til að sýna fram á að fyrra afrekið hafi ekki verið nein heppni. Enda er heppni enginn faktor í svona hlutum.

Og eftir þetta klöppuðum við feðgar saman í fögnuði. Þengill rogginn og stoltur. Pabbi hans líka.

fimmtudagur, september 15, 2005

Þar sem ég var að fara að ná í meira kaffi í vinnunni þá allt í einu mundi ég eftir texta lags sem ég söng í Sound of America þegar ég fór í kórferðalag með þeim 1990. Snilldartexti sem fjallar um það að ef maður gengur í gegnum raunir og fer á móti vindi þá muni maður styrkjast og í lok ganga eins og maður. Svo var lagið helv. flott líka. Bara strákarnir og lagið var flutt einungis í Notre Dame dómkirkjunni í París af ástæðum sem ég ætla ekki að fara út í hér.

Do you feel the force of the wind
the slash of the rain
go face them and fight them
be ragged, be ragged again.

Go hungry and cold like the wolf,
go hungry and cold like the wolf.
Go wade, like the crane.
Go wade like the crane, like the crane.

The palms of you hands will thicken,
the skin of your cheeks will tan.
You'l go ragged, you'le go weary
you'l go ragged and swarthy.

But you'll walk, but you'll walk.
You'll walk like a man.


Þetta hef ég sannreynt að er satt og rétt.
Við Þengill vorum í gönguæfingabúðum Berjarima í gær og viti menn, Þengill tók tvö lítil skref óstuddur. Þetta voru hans fyrstu skref og ber að fagna þeim. Þau eiga sko eftir að vera fleiri en við erum þó ekkert að flýta okkur. Tökum okkar tíma í þetta. Ætli það verði ekki smá æfing í dag og svo sjáum við til.

laugardagur, september 10, 2005

Afi er látinn

Kristján afi minn lést áðan. Mikill og yndislegur heiðursmaður er farinn frá okkur og við eigum eftir að sakna hans sárt og viskumolana sem hann hafði nóg af og deildi með okkur af mikilli óeigingirni.

þriðjudagur, september 06, 2005

The ultimate F### you!

Lance Armstrong var ásakaður af franska íþróttablaðinu L'Equipe um að hann hefði tekið steralyf. Sko, Lance er búinn að vinna hina frönsku Tour de France hjólreiðakeppni SJÖ ár í röð og ætlaði að hætta keppni eftir síðasta Tour. Þessi velgengni hefur farið virkilega í þjóðerniskenndartaugar Frakka. Að Bandaríkjamður skuli vinna á þeirra heimavelli og það sjö ár í röð. Þannig að til að hefna sín á Frökkum fyrir þessar illa ígrunduðu ásakanir er Lance núna að íhuga að hætta við að hætta og þar með stefna á áttunda stigurinn. Sem ég er viss um að hann nær að gera, gaurinn er ofurmenni.

Svona á að segja F### you (fr. Va te faire foutre). Alger snilld. Svona á að gera þetta :)

Veikindi í gangi

Það eru veikindi í gangi á heimilinu. Þengill nýbúinn með hlaupabóluna og kominn með kvef + eyrnabólgu. Bríet tók við hlaupabólukeflinu og er hálfnuð með hlaupið núna. Öll í bólum og er feikna hugrökk og dugleg (sem Þengill var líka). Ég er með kvef og hálsbólgu. Kötturinn er geðveikur að vana. Bíllinn með endurskoðunarmiða. Ég þarf bara að fá vírus í eina tölvuna mína og þá er þetta fullkomið. Er ekki lífið yndislegt?

Elsa mín er ekki veik enda übermenchen.

laugardagur, september 03, 2005

Árni Mathiesen og Ian Campbell hafa verið að skrifast á, eru orðnir n.k. pennavinir nema hvað þeir gagnrýna hvorn annan frekar en að tala um daginn og veginn.
Nema hvað... Mbl.is er með eftirfarandi: "Á fréttavefnum news.com.au er haft eftir Campbell: „Er maðurinn fífl? Er hann að fara fram á að við leggjum fram nákvæmar upplýsingar um líffjölbreytni á beitarlöndum á fundi um hvali? Þeir ættu að skammast sín fyrir þetta.“

Árni s.s. svaraði fyrir sig og hefur hitt á veikann blett greinilega. Gott hjá Árna, láta mannfj. heyra það. Það þýðir ekki að leyfa mönnum eins og Cambell sem hefur ekki hundsvit á okkar högum að vaða yfir okkur á skítugum skónum þegar hann sjálfur er með sínar skuggahliðar.

Campbell talar um fækkun kengúra til að vernda sínar auðlindir, beitihaga bændanna. Hvað heldur hann að sjórinn hérna sé? Baðströnd fyrir túrista?

Það eru greinilega til fífl í Ástralíu líka.
Þengill er kominn með eyrnabólgu eina ferðina enn. Þetta er sú áttunda á árinu og númer níu á æfi hans, sem er nærri því árslöng.
En hann er harður af sér strákurinn og hugrakkur. Eins og pabbi hans :)