miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Reykjavík - Akureyri - Reykjavík

Ég er einn heima núna. Elsa og börnin eru á Akureyri. Við fórum norður á laugardagsmorgun og vorum fjóra tíma á leiðinni. Engin stopp enda í kappi við klukkuna að ná dagskránni á fiskideginum mikla á Dalvík. Við létum enga fyrir norðan vita að við værum á leiðinni og Sigrún hélt að við yrðum í Reykjavík. Svo við bæjarmörkin, eða þorpsmörkin frekar, hringdi Elsa í systur sína og leyfði henni að mása og blása aðeins hvað við værum óheppin að vera ekki á Dalvík, þar sem við vorum reyndar akkúrat þá. Heldur betur var nú upplit og undrun á liðinu þegar við fjölskyldan marseruðum í átt að aðalsviðinu og hittum vini og ættingja á leiðinni. Sigrún missti kjálkann í götuna, bókstaflega, þegar hún sá okkur. Alger snilld að verða vitni að því.

Svo flaug ég suður morguninn eftir enda að vinna í free-lance verkefni og þarf að fara að skila af mér. En flugið var ekki beint slétt og fellt. Þegar við lækkuðum flugið byrjaði ókyrrðin sem var mjög öflug meðan við fórum niður í gegnum skýin yfir Akranesi. Og ókyrrðin var alveg þar til við vorum svona 10 metra yfir landi, rétt í þann mund að fara að lenda. Þá féll allt í dúnalogn og við lentum eins og á bómullarhnoðra. Hnökralaust. Svíinn sem sat við hliðina á mér var reyndar hvítur af hræðslu, og ég hafði nú nett gaman af því að sjá það. Líka þegar ég sá að hann fór í afgreiðsluna í flugstöðinni til að kvarta yfir fluginu, sem var reyndar að kvarta yfir veðrinu því það var að þess sökum að flugið var doldið ævintýralegt. Ég meina, engum nema einhverjum Svía dettur í hug að kvarta yfir veðrinu á Íslandi.

Svo var tekinn strætó heim, enda bíllinn á Akureyri. Skemmtileg upprifjun á öllum þeim ástæðum sem eru til að vera á einkabíl, þó það sé dýrara. Ég meina, ég eyddi samtals helvítis hálftíma í að bíða eftir strætó. Þvílíkt helvítis veist off tæm. Og það í roki og rigningu, sem ég reyndar hafði nett gaman af.

Engin ummæli: